Lentu tvisvar undir en komu til baka

Hinn ungi Gestur Helgi Snorrason skoraði sitt fyrsta mark fyrir Árborg í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar vann seiglusigur á KFS í Vestmannaeyjum í 4. deild karla í knattspyrnu þegar liðin mættust á Týsvellinum í Eyjum í kvöld.

Eyjamenn voru fyrri til að skora þegar Junior Niwamanya kom þeim yfir strax á 13. mínútu en tveimur mínútum síðar hafði fyrirliðinn Kristinn Ásgeir Þorbergsson jafnað metin fyrir Árborg. Fjörið var þó ekki búið í fyrri hálfleik því um hann miðjan komst KFS aftur yfir, að þessu sinni með marki frá Heiðmari Magnússyni og staðan var 2-1 í hálfleik.

Árborgarar voru sterkari í seinni hálfleik og á 70. mínútu jafnaði Gestur Helgi Snorrason metin, nýkominn inná sem varamaður. Mínútu síðar bætti Aron Freyr Margeirsson við marki og breytti stöðunni í 2-3 og Kristinn Ásgeir átti lokaorðið fjórum mínútum fyrir leikslok og tryggði Árborg þar 2-4 sigur.

Eftir bras í síðustu fjórum leikjum voru Árborgarar orðnir langeygir eftir sigri. Liðið er nú í 3. sæti 4. deildarinnar með 15 stig en KFS í 8. sæti með 10 stig.

Fyrri greinFjör í Keflavík en engin stig í pokann
Næsta greinGekk beint í flasið á Karl og Susan Kennedy