Lengsta og fjölmennasta utanvegahlaup landsins

Náttúran sem hlaupið er um í Salomon Hengil Ultra er algjörlega einstök en hér eru hlauparar að nálgast Sleggjubeinsskarð við Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd/Bernhard Kristinn

Það styttist í Salomon Hengil Ultra sem er lengsta og fjölmennasta utanvegahlaup á Íslandi. Mótið verður ræst í miðbæ Hveragerðis næstkomandi föstudag kl. 14:00 þegar hlauparar í 100 mílna (163 km) vegalengdinni verða ræstir.

Klukkan 22 á föstudagskvöld verða 200 keppendur í 106 km og miðnætur útgáfum nokkurra vegalengda ræstir. Á laugardaginn eru ræsingar klukkan 8:00, 10:00, 13:00 og 14:00 í fjölda vegalengda en langstærsta ræsingin er klukkan 13:00 þegar rúmlega 500 keppendur hlaupa af stað í 26 km hlaupið. Skráðir þátttakendur í mótinu öllu eru komnir yfir eitt þúsund.

Allt mótið í beinni útsendingu
Allar ræsingar og helstu áfangar hlaupsins verða sendir út á Facebook Live og YouTube Live og hefjast allar útsendingar klukkutíma fyrir hverja ræsingu fyrir sig. Á föstudag verða útsendingar í tveimur hlutum. Sú fyrri fer í gang klukkan 13:00 og seinni útsendingin fer síðan í gang kl 21:00 og stendur til 22:45. Morguninn eftir fer útsending í gang uppúr 7:00 og stendur meira og minna yfir þangað til að öll hlaup hafa verið ræst og fremstu hlauparar lengstu hlaupanna verða komnir í mark.

Danska landsliðið keppir
Í ár bregður til tíðinda því danska landsliðið í utanvegahlaupum hefur skráð sig til leiks og hingað koma því sterkustu utanvegahlauparar Danmerkur. Heimsókn danska landsliðsins er hluti af undirbúningi þeirra fyrir Evrópumótið í utanvegahlaupum sem fer fram á La Palma á Canary í byrjun júlí. Danska liðið er valið með það verkefni í huga og því munu þau hlaupa 26 km hlaupið í Hengil Ultra en ekki lengri vegalengdir. Jafnframt mun hópurinn nýta Hengilssvæðið til æfinga.

Stórsýning og markaður í íþróttahúsinu
Á laugardaginn verður Trail Running Expo í Íþróttahúsinu í Hveragerði í tengslum við Salomon Hengil Ultra. Þar verða nokkrar flottustu íþróttavöruverslanir landsins með mikið af úrvalsvöru á mjög góðum verðum. Allir eru velkomnir að skoða og gera góð kaup. Þar verður einnig sýnt frá mótinu á risa skjá og þar verða allar verðlauna afhendingar þannig að enginn missir af neinu.

Dagská í Reykjadals Lodge
Allan laugardaginn verður hægt að fylgjast með hlaupurum Hengils Ultra hlaupa fram hjá Reykjadals Lodge og þau verða með beinu útsendinguna í gangi frá ræsingu og marklínu allan laugardaginn. Á laugardagskvöldið verður síðan Sycamore Tree með tónleika í Reykjadals Lodge. Fallegt kvöld við arineldinn á dásamlegum stað, fjórum mínútum frá Hveragerði í dalnum fagra.

Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi í brautinni en hér eru nokkrir sprækir Hvergerðingar að busla sig í gegnum 10 km brautina sem er einkar fjölbreytt. Ljósmynd/EB
Fyrri greinGrýlupottahlaup 6/2022 – Úrslit
Næsta greinÁratuga samstarf innsiglað áfram