Lengjudeildarliðið sló Selfoss úr bikarnum

Emelía Óskarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss er úr leik í Mjólkurbikar kvenna í knattspyrnu eftir 2-1 tap gegn Lengjudeildarliði Víkings Reykjavík á útivelli í dag.

Víkingar byrjuðu betur í leiknum en Selfyssingar urðu fyrri til að skora. Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir átti frábæra sendingu innfyrir á Emelíu Óskarsdóttur sem skoraði af öryggi. Selfyssingar réðu lögum og lofum í kjölfarið en náðu ekki að bæta við marki og staðan var 0-1 í leikhléi.

Þegar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik sluppu Víkingar innfyrir eftir mistök í vörn Selfoss og Sigdís Eva Bárðardóttir jafnaði metin. Selfoss komst í ágætar stöður á næstu mínútum en vantaði að reka endahnútinn á sóknirnar.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok unnu Víkingarnir baráttuna í vítateig Selfoss og Sigdís Eva náði skoti sem fór af varnarmanni Selfoss í netið. Víkingar fögnuðu hraustlega og enn meira í leikslok þar sem Selfyssingum tókst ekki að finna jöfnunarmarkið á lokakaflanum.

B-deildarlið Víkings er því komið í undanúrslitin en bikardraumur Selfoss er úti.

Fyrri greinSíðasti skellurinn fór illa með margt
Næsta greinStöngin út á Akureyri