Leikur Selfoss hrundi í seinni hálfleik

Selfoss tók á móti ÍBV í N1-deild kvenna í handbolta í dag. Eftir jafnan fyrri hálfleik rúllaði ÍBV yfir Selfoss í síðari hálfleik og sigraði 15-29.

Leikurinn fór hægt af stað en fljótlega náði ÍBV fjögurra marka forskoti, 1-5. Selfossliðið svaraði með góðum kafla og jafnaði 8-8 og aftur 12-12.

Í bæði skiptin fengu þær vínrauðu tækifæri til að komast yfir í kjölfarið en nýttu ekki sóknir sínar og Eyjaliðið svaraði um hæl. Staðan var 12-15 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var eign Eyjamanna frá A-Ö. Þær komust strax í 13-20 og eftir tíu mínútna leik var staðan 15-21.

Selfyssingar skoruðu síðan ekki mark síðustu tuttugu mínútur leiksins þar sem ÍBV lék fína vörn og markvörður liðsins varði allt sem að markinu kom. Mikið munaði um markvörsluna í leiknum þar sem Florentina Stanciu varði 30/2 skot í marki ÍBV, fimmtán í hvorum hálfleik, og var með 67% markvörslu á meðan markverðir Selfoss vörðu fimm skot samtals.

Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 4 mörk fyrir Selfoss, Carmen Palamariu 4/2, Þuríður Guðjónsdóttir 3, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 2 og þær Sigrún Arna Brynjarsdóttir og Dagný Hanna Hróbjartsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði þrjú skot í marki Selfoss og Ásdís Ingvarsdóttir tvö.

Selfoss er í níunda sæti deildarinnar með tvö stig, eins og Fylkir sem er í tíunda sæti en liðin eigast við í næstu umferð á þriðjudagskvöld í Fylkishöllinni.

Fyrri greinBílvelta á Skeiðavegi
Næsta greinYrði verk upp á nokkra milljarða króna