Leikur KFR og Afríku flautaður af eftir tíu mínútur

Furðuleg uppákoma átti sér stað í leik Afríku og KFR í 4. deild karla í knattspyrnu á ÍR-vellinum í Breiðholti í kvöld. Leikurinn var flautaður af eftir tíu mínútur.

Eftir að liðin höfðu hitað upp gekk lið Afríku til búningsklefanna en Rangæingar biðu úti á vellinum. Sú bið varð ansi löng, að sögn Hjörvars Sigurðssonar, fyrirliða KFR.

„Ég veit nú ekki alveg hvað við biðum lengi en eftir dágóða stund koma dómararnir út á völlinn og tilkynna okkur það að þjálfari Afríku hafi fengið rautt spjald og að Afríkuliðið neiti að spila leikinn ef þessi dómari eigi að dæma,“ segir Hjörvar, en Viatcheslav Titov var dómari leiksins.

„Þetta var nú bara rétt að byrja þarna því síðan kemur Afríka út á völl og þjálfarinn þeirra líka og labbar beint á bekkinn. Dómararnir reka hann í burtu og þá verður allt brjálað. Afríkuliðið og þjálfarinn mótmæltu og sumir voru orðnir ansi heitir. Þetta er það furðulegasta sem ég hef lent í á mínum knattspyrnuferli,“ segir Hjörvar og bætir við að þessi uppákoma hafi örugglega tekið hátt í tuttugu mínútur.

„Svo loksins hefst leikurinn en eftir sirka tíu mínútur þá flautar dómarinn leikinn af og segir að þetta gangi ekki lengur. Þá hafði þjálfari Afríku verið utan vallar að kalla inn á völlinn, en lét það líta út eins og hann væri að tala í símann,“ segir Hjörvar.

Rangæingar vita ekki hver framvinda þessa máls verður en það ætti að skýrast í hádeginu á morgun hvort leikurinn verði settur á næstkomandi föstudag, eða hvort Rangæingum verði dæmdur 0-3 sigur.

Fyrri greinÞórhallur skoraði tvö og sá rautt
Næsta greinSigurvegari Giro d'Italia í Kia gullhringnum