Leikmenn eilítið áttavilltir í gjörbreyttu íþróttahúsi á Flúðum

Í gærkvöldi fór fram fyrsti leikurinn í 1. deild karla á Íslandsmótinu í blaki í nýstækkuðu íþróttahúsi Hrunamanna á Flúðum. Þar tóku heimamenn í Umf. Hrunamanna á móti sameiginlegu liði Fylkis/Þróttar Reykjavíkur.

Fyrir leik afhentu leikmenn Hrunamanna, Jóni Guðmundi Valgeirssyni sveitarstjóra og Árna Þór Hilmarssyni íþróttakennara við Flúðaskóla ásamt nokkrum ungmennum, krakkablaksbolta í tilefni kvöldsins.

Leikurinn var sá fyrsti sem spilaður er á aðalvelli húsins sem var stækkað um rúmlega helming í sumar. Sást það í byrjun hans því bæði lið voru eilítið áttavillt inná vellinum, Fylkir/Þróttur byrjuðu þó fyrstu hrinuna betur og höfðu yfirhöndina framí lok hrinunnar, í stöðunni 21 – 24 F/Þ í vil snéru þó heimamenn hrinunni sér í vil. Settu 4 stig í röð og náðu að tryggja sér svo sigurinn í lokin, 28 – 26.

Önnur hrina var jöfn og spennandi og skiptust liðin á að hafa forystuna í byrjun og frameftir henni miðri er Hrunamenn tóku hana yfir og unnu hana nokkuð sannfærandi í lokin, 25 – 21.

Þriðja hrina byrjaði betur fyrir heimamenn sem náðu góðu forskoti og voru yfir 13 – 8 þegar að F/Þ tóku á mikinn sprett og náðu að jafna hana í 14 -14. Náðu F/Þ svo forystunni 18 – 19 en þá virtist sem þeir væru komnir á leiðarenda og Hrunamenn tóku síðustu hrinuna eins og þá aðra 25 – 21 og þar með leikinn 3 – 0.

Leikurinn var lengi í gang enda bæði lið að reyna að finna sig í húsinu sem tekið hefur miklum breytingum í sumar við stækkunina. Óhætt er að fullyrða að húsið sé komið í fremstu röð af íþróttahúsum á landinu með þeim breytingum sem orðið hafa í sumar. Má þar meðal annars nefna lýsinguna sem er einstök og hvergi að finna í öðrum húsum hér á landi. Um er að ræða led ljós sem gera það kleift að stjórna lýsingunni mun betur en verið hefur áður í íþróttahúsum á Íslandi.

Með þessari stækkun á íþróttahúsi Hrunamanna opnast fyrir mótahald af annarri stærðargráðu en verðið hefur hér í sveit. Nú þegar hafa verið haldin mót í yngri flokkum telpna í körfubolta hjá KKÍ og einnig í heldri flokki kvenna í blaki innan HSK.

Fyrri greinHreppamenn og Selfyssingar á Kötlumóti í Keflavík
Næsta greinBjóða í afmæli á laugardag