Leikir dagsins: Selfoss, Ægir og KFR með mikilvæga sigra

Selfyssingar fóru langt með að bjarga sér frá falli í 1. deild karla í knattspyrnu í dag, Ægir vann mikilvægan sigur í 2. deildinni og KFR vann sömuleiðis mikilvægan leik í 3. deildinni.

Selfoss vann lærisveina Zoran Miljkovic í Þrótti 0-1 á útivelli í dag. Javier Zurbano skoraði eina mark leiksins á 36. mínútu.

Selfyssingar eru þá komnir með töluvert andrými í neðri hluta stigatöflunnar, hafa 24 stig í 8. sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir og eru 9 stigum frá fallsæti.

Ægir vann stórsigur á Sindra í 2. deildinni þar sem Þorlákshafnarliðið var í miklu stuði í fyrri hálfleik. Jóhann Óli Þórbjörnsson kom Ægi yfir á 24. mínútu og Haukur Már Ólafsson skoraði tvívegis með mínútu millibili skömmu síðar. Darko Matejic lokaði fyrri hálfleiknum með fjórða marki Ægis og hann bætti fimmta markinu við strax í upphafi síðari hálfleiks. Sindramenn klóruðu í bakkann á 67. mínútu og lokatölur urðu 5-1.

Þrátt fyrir sigurinn eru Ægismenn ekki alveg komnir af hættusvæðinu því þeir eru í 9. sæti deildarinnar með 20 stig, sjö stigum frá fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir.

KFR sigraði Leikni frá Fáskrúðsfirði 2-1 á SS-vellinum á Hvolsvelli í dag. Hjörvar Sigurðsson kom Rangæingum yfir með marki úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik en gestirnir jöfnuðu fyrir leikhlé. Guðmundur Garðar Sigfússon, þjálfari KFR, tryggði sínum mönnum hins vegar sigurinn með eina marki síðari hálfleiks.

Staðan í 3. deildinni er mjög athyglisverð en þéttur pakki er í neðri hlutanum. KFR er í 6. sæti, um miðja deild með 19 stig, fjórum stigum frá botnsætinu.

Þá tók Árborg á móti Stokkseyri í stórleik dagsins í 4. deildinni. Lokatölur urðu 2-1 og verður fjallað nánar um þann leik hér á síðunni síðar í dag.

UPPFÆRT 17:54
Fyrri greinBíða eftir fundi með ráðherra
Næsta greinÞrjú mörk á fimm mínútum í Suðurlandsslag