Leik lokið á níu mínútum

Stefan Dabetic, fyrirliði Ægis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn áttu sér ekki viðreisnar von þegar þeir tóku á móti Vestra í Kórnum í Kópavogi í Lengjudeild karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn var færður í Kórinn þar sem Vestramönnum leist ekki á að spila í rokinu í Þorlákshöfn.

Ægir átti ekki roð í gestina, eftir rúmar 40 sekúndur var staðan orðin 0-1 og á næstu átta mínútum fylgdu tvö mörk til viðbótar. Staðan var 0-3 eftir níu mínútur og leik lokið. Fyrri hálfleikur var einstefna að marki Ægis en staðan var enn 0-3 þegar flautað var til leikhlés.

Seinni hálfleikurinn var nokkuð rólegri en Vestramenn bættu við tveimur mörkum og sigruðu 0-5.

Ægismenn eru langneðstir í deildinni, með 9 stig þegar tvær umferðir eru eftir en Vestri er á leið í umspil um sæti í Bestu deildinni, liðið er með 33 stig í 4. sæti.

Fyrri greinHr. Eydís með sannkallaða bombu
Næsta greinAðalleið bauð lægst í jarðvinnu við Óskaland