Laugdælir/Uppsveitir, sem leikur í 2. deild Íslandsmótsins, tók á móti úrvalsdeildarliði Ármanns í bikarkeppni karla í körfubolta á Laugarvatni í dag. Eftir stórskemmtilegan leik sigruðu Ármenningar 83-115.
Fyrsti leikhluti var hnífjafn og liðin skiptust á um að hafa forystuna. Ármenningar luku leikhlutanum á 7-2 áhlaupi og leiddu 29-33 þegar tíu mínútur voru liðnar. Upp úr miðjum 2. leikhluta seig Ármann framúr og staðan í hálfleik var 49-67.
Forskot Ármenninga jókst jafnt og þétt í seinni hálfleiknum. Laugdælir/Uppsveitir áttu nokkur áhlaup en bilið var orðið of mikið og á endanum skildu 32 stig liðin að.
Frank Gerritsen var stigahæstur hjá Laugdælum/Uppsveitum með 24 stig og 7 stoðsendingar og Hringur Karlsson var sömuleiðis öflugur með 21 stig.
Laugdælir/Uppsveitir-Ármann 83-115 (29-33, 20-34, 20-27, 14-21)
Tölfræði Laugdæla/Uppsveita: Frank Gerritsen 24/4 fráköst/7 stoðsendingar/5 stolnir, Hringur Karlsson 21/4 fráköst, Kári Daníelsson 12/5 fráköst, Nicolas Dierynck 12/6 fráköst, Matiss Gunga 9/5 fráköst, Ingvar Jökull Sölvason 5.

