Laugdælir áfram, Þór úr leik

Laugdælir eru komnir í 8-liða úrslit Poweradebikars karla í körfubolta en Þórsarar féllu naumlega úr leik.

Laugdælir tóku á móti Aroni Kárasyni og félögum hans í Ármanni á Laugarvatni í kvöld. Laugdælir voru betri aðilinn í leiknum og leiddu í hálfleik, 55-38. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en gestirnir náðu að svara fyrir sig í síðasta fjórðungnum.

Anton Kárason var stigahæstur heimamanna með 24 stig og Sigurður Orri Hafþórsson skoraði 21. Bjarni Bjarnason var einu frákasti frá þrefaldri tvennu en hann skoraði 16 stig, tók 9 fráköst og átti 10 stoðsendingar. Jón H. Baldvinsson átti sömuleiðis góðan leik með 15 stig, 9 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Pétur Már Sigurðsson skoraði 11 stig, Arnór Yngvi Hermundarson 7, Haukur Már Ólafsson 6 og Helgi Hrafn Ólafsson 2.

Jafnt á Ásvöllum
Þórsarar létu úrvalsdeildarlið Hauka hafa virkilega fyrir hlutunum í viðureign liðanna á Ásvöllum í kvöld. Leikurinn var jafn fram í síðasta fjórðung en Þór leiddi í hálfleik, 42-44.

Lokamínúturnar voru æsispennandi en Þórsarar komust yfir 71-72 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Þá kom skelfilegur kafli þar sem Haukar skoruðu 13 stig gegn 2 og tryggðu sér 84-74 sigur.

Eric Palm skoraði 33 stig fyrir Þór, Vladimir Bulut 14 og 11 fráköst, Philip Perre 11, Hjalti Valur Þorsteinsson 8 og þeir Þorsteinn Már Ragnarsson og Bjarki Gylfason voru báðir með 4 stig.

16-liða úrslitunum lýkur á sunnudagskvöld en þá heimsækja Hamarsmenn KR.

Fyrri greinÖruggur sigur á Val
Næsta greinPrúðbúnir fá afslátt