Laugdælir upp í 1. deild

Ungmennafélag Laugdæla vann sér í morgun sæti í 1. deild karla í körfuknattleik á næsta keppnistímabili. Laugdælir lögðu Álftanes 101-74.

Laugdælir voru sterkari aðilinn í leiknum frá upphafi og leiddu í hálfleik, 41-34. Munurinn jókst í síðari hálfleik og í síðasta fjórðungnum gerðu Laugvetningar endanlega út um leikinn með góðum sóknarleik.

Þar með var ljóst að Laugdælir höfðu endurheimt sæti sitt í 1. deild eftir eitt tímabil í 2. deild.

Jón Baldvinsson var stigahæstur hjá Laugdælum með 24 stig og 10 fráköst. Snorri Þorvaldsson skoraði 19 stig, Sigurður Orri Hafþórsson 18, Bjarni Bjarnason 17 og Kristinn Ólafsson 15.

Laugdælir leika til úrslita um deildarmeistaratitilinn gegn Leikni í Iðu kl. 16 í dag.

Fyrri greinKammerkór Reykjavíkur syngur í dag
Næsta greinRafmagnslína slitnaði og olli sinubruna