Laugdælir unnu fallslaginn

Laugdælir lögðu Ármenninga 85-70 þegar liðin mættust á Laugarvatni í kvöld í 1. deild karla í körfubolta.

Leikurinn var báðum liðum mikilvægur en liðin höfðu 4 stig á botninum fyrir leikinn. Með sigrinum sitja Laugdælir nú í 9. sæti með 6 stig eins og Leiknir og Höttur. Laugdælir mæta Leikni einmitt í næstu umferð á útivelli.

Laugdælir byrjuðu betur í leiknum gegn Ármanni í kvöld og leiddu að loknum 1. leikhluta, 28-19. Ármenningar minnkuðu muninn í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 38-37.

Heimamenn reyndust svo sterkari í síðari hálfleik og unnu öruggan sigur að lokum.

Bjarni Bjarnason lék vel að vanda hjá Laugdælum með 25 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Pétur Már Sigurðsson skoraði 22 stig, Anton Kári Kárason 13 og þeir Sigurður Orri Hafþórsson og Jón H. Baldvinsson skoruðu báðir 10 stig. Jón var með 9 fráköst og 6 stoðsendingar að auki.