Laugdælir töpuðu fyrir botnliðinu

Laugdælir fengu botnlið Hattar í heimsókn í 1. deild karla í körfubolta í dag. Gestirnir fóru með sigur af hólmi, 79-85.

Hattarmenn byrjuðu mun betur og leiddu í hálfleik 29-41. Munurinn hélst sá sami út 3. leikhluta en þá tóku Laugdælir við sér.

Með 21-3 leikkafla í 4. leikhluta breyttu Laugdælir stöðunni úr 48-66 í 69-69 þegar fjórar mínútur voru eftir. Höttur svaraði þá með sjö stigum í röð og staðan var 69-76 þegar tvær og hálf mínúta var eftir.

Darraðardansinn var mikill á lokamínútunum. Sigurður Orri Hafþórsson skoraði sjö stig fyrir Laugdæli á síðustu 30 sekúndunum á milli þess sem Hattarmenn fóru á vítalínuna og nýttu sjö af átta vítaskotum sínum.

Pétur Már Sigurðsson var stigahæstur Laugdæla með 18 stig, Jón H. Baldvinsson skoraði 16 stig, Anton Kárason 15 og Sigurður Orri Hafþórsson 15 og Bjarni Bjarnason 11, auk þess sem hann tók 8 fráköst.