Laugdælir byrjuðu illa

Laugdælir sóttu Ármenninga heim í Laugardalshöllina í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Þar fóru heimamenn með sigur af hólmi, 81-73.

Slök byrjun í leiknum varð Laugdælum að falli en staðan að loknum 1. leikhluta var 23-13. Eftir það var leikurinn jafn en þó Laugdælir hafi elt Ármann eins og skugginn náðu þeir aldrei að brúa bilið sem skapaðist í upphafi leiks. Staðan í hálfleik var 39-33.

Sigurður Orri Hafþórsson var stigahæstur Laugvetninga með 15 stig og Anton Kári Kárason skoraði 14. Bjarni Bjarnason var drjúgur út um allan völl en hann skoraði 13 stig, tók fjögur fráköst, átti átta stoðsendingar og stal sjö boltum. Jón H. Baldvinsson skoraði 12 stig og tók 10 fráköst og Pétur Már Sigurðsson skoraði 11 stig.