Latinovic með sigurkörfu á lokasekúndunni

Þór vann dramatískan sigur á deildarmeisturum Snæfells í Iceland Express-deild karla í körfubolta í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Marko Latinovic tryggði 85-83 sigur með flautukörfu.

Þór skoraði sjö síðustu stig leiksins á síðustu mínútu leiksins og hreinlega stal sigrinum sem virtist blasa við Snæfelli.

Heimamenn byrjuðu leikinn frábærlega vel studdir af Græna drekanum og voru komnir tíu stigum yfir, 13-3, þegar rétt tæplega fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Snæfell náði að minnka muninn í fjögur stig fyrir lok fyrsta leikhluta, 18-14.

Snæfell skoraði fimm fyrstu stig annars leikhluta á rétt rúmlega hálfri mínútu og komust yfir, 18-19. Upp frá því var jafnt á öllum tölum fram að hálfleik þar sem leikar stóðu 41-41.

Um miðbik þriðja leikhluta virtist Snæfell ætla að stinga af. Gestirnir náðu þá sex stiga forystu 51-57 og allt virtist vera að falla með þeim. Þá skoraði Grétar Erlendsson góða körfu og Darri Hilmarsson stal boltanum í kjölfarið og skoraði auk þess að fá víti sem líka nýtti og muninn skyndilega aðeins eitt stig og stemningin snérist í lið með heimamönnum á ný. Þá skoraði Snæfell sex stig í röð og komst aftur yfir en Þór minnkaði muninn á nýjan leik og staðan var 64-68 þegar síðasti leikhlutinn hófst.

Snæfell var skrefi á undan í fjórða leikhluta en Þórsarar fylgdu þeim eins og skugginn. Þegar ein mínúta var eftir setti Darrin Glovens niður þriggja stiga skot og minnkaði muninn í 81-83. Hann jafnaði síðan metin í næstu sókn og þá voru 24 sekúndur eftir á klukkunni.

Snæfell náði ekki að nýta síðustu sókn sína og Þór fékk boltann þegar tvær og hálf sekúnda var eftir. Boltinn fór útaf af leikmanni Snæfells og Þór fékk innkast með 1,2 sekúndur á klukkunni. Latinovic fékk boltann undir körfunni úr innkastinu og sniðskot hans lak niður um leið og lokaflautið gall og tveggja stiga sigur heimamanna því staðreynd.

Darrin Govens skoraði 27 stig fyrir Þór, Guðmundur Jónsson 16 og Darri Hilmarsson 13. Michael Ringgold skoraði 11 stig og tók 11 fráköst, Marko Latinovic skoraði 10 stig, Grétar Erlendsson 6 og Baldur Ragnarsson 2.

Þór er í 4. sæti deildarinnar að loknum þremur umferðum með tvo sigra og eitt tap.