Lárus sæmdur gullmerki

Á aðalfundi Íþróttafélagsins Hamars um síðustu helgi var Lárus Ingi Friðfinnsson formaður og stofnandi körfuknattleiksdeildar Hamars, sæmdur gullmerki Hamars.

Kom fram í máli formanns að Lárus hlyti gullmerkið fyrir áratuga ósérhlífið starf og einstaka elju við uppbyggingu og rekstur körfuknattleiksdeildarinnar í Hveragerði.

Formannsskipti urðu á aðalfundinum en Hjalti Helgason lét af störfum eftir fimm ára setu í embætti. Nýr formaður er Hallgrímur Óskarsson og með honum í stjórn eru Svala Ásgeirsdóttir, Dagrún Ösp Össurardóttir, Hjalti Valur Þorsteinsson og Daði Steinn Arnarsson.