Lárus í þriggja leikja bann

Lárus Viðar Stefánsson, þjálfari og leikmaður KFR, var úrskurðaður í þriggja leikja keppnisbann af aganefnd KSÍ í gær.

Lárus fékk rautt spjald í leik Hamars og KFR í 2. deildinni í síðustu viku og er það þriðja rauða spjaldið sem hann sér í sumar. Þrjú rauð þýða sjálfkrafa þrír leikir í bann.

Lárus verður því ekki meira með KFR í sumar fyrr en í lokaumferðinni þegar liðið heimsækir Dalvík/Reyni.

Fleiri Sunnlendingar voru dæmdir í agabann í gær. Andy Pew verður ekki með Hamri þegar liðið heimsækir Fjarðabyggð í fallslag í 2. deildinni á laugardaginn en Andy fær eins leiks bann vegna fjögurra áminninga í sumar. Með sigri fyrir austan tryggja Hvergerðingar áframhaldandi sæti sitt í 2. deildinni.

Þá er Selfyssingurinn Tómas Leifsson í banni í leiknum gegn KR í Pepsi-deildinni á sunnudaginn en Tómas hefur einnig fengið fjórar áminningar í sumar.