Langur vegur eftir

Sunnlensku áhafnirnar eru í 13. og 14. sæti í Rally Reykjavík þegar fyrsta keppnisdegi af þremur er lokið.

Þeir Heimir Snær Jónsson og Halldór Gunnar Jónsson á Jeep Cherokee eru í 13. sæti í heildina og í 2. sæti í jeppaflokki. Þeir töpuðu talsverðum tíma á lengstu leið dagsins, um Djúpavatn, eftir að hafa náð bílnum á undan sér og ekki komist framúr. Keppnin er þó mjög jöfn enn sem komið er og stutt í næstu bíla. Langur vegur er líka eftir í endamarkið en dagurinn í dag er sá stysti af þremur.

Þór Líni Sævarsson og Sigurjón Þór Þrastarson á Subaru Impreza eru í 14. sæti í heildina. Þeir félagar voru í 2. sæti að lokinni fyrstu sérleið en töpuðu svo miklum tíma á 2. sérleið, um Djúpavatn, þar sem aðstæður voru mjög erfiðar og túrbóbílarnir ekki að gera gott mót í bleytunni. Þeir stigu svo fastar á bensíngjöfina á síðustu þremur leiðum dagsins og tóku besta tímann á síðustu sérleiðinni.

Á morgun verður ekið á Suðurlandi, meðal annars á Hellisheiði og á sérleiðum í nágrenni Heklu.

Tímaáætlun keppninnar má skoða hér.


Heimir Snær og Halldór Gunnar í loftköstum á Djúpavatnsleið í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinSelfoss skellti toppliðinu – aftur
Næsta greinDregið í ratleikjum Blómstrandi daga