Langþráður sigur Selfyssinga

Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 8 mörk fyrir Selfoss. Ljósmynd: Umf. Selfoss/ÁÞG

Kvennalið Selfoss í handbolta vann langþráðan sigur í 1. deildinni í dag þegar Víkingur kom í heimsókn í Hleðsluhöllina á Selfossi. Þetta var fyrsti sigur liðsins síðan í janúar.

Selfoss náði frumkvæðinu snemma leiks og munurinn varð mestur fjögur mörk í fyrri hálfleik, 12-8. Staðan í hálfleik var 13-10.

Víkingar skoruðu fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik en þá tóku Selfyssingar aftur við sér og skoruðu fjögur mörk í röð. Staðan var þá orðin 17-12 og Selfyssingar náðu að verja forystuna til leiksloka. Spenna hljóp í leikinn á lokakaflanum en Selfoss hafði tveggja marka sigur, 25-23, og þær vínrauðu fögnuðu vel í leikslok.

Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8/2 mörk, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoraði 6/1, Tinna Traustadóttir 4/1, Rakel Guðjónsdóttir og Ivana Raickovic 2 og þær Agnes Sigurðardóttir, Elín Krista Sigurðardóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Lena Ósk Jónsdóttir varði 9 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu.

Fyrri greinKona í sjálfheldu í hlíðum Ingólfsfjalls
Næsta greinÞórsarar töpuðu toppslagnum