Langþráður sigur Hamars-Þórs

Lið Hamars/Þórs. Ljósmynd/Hamar-Þór Körfubolti

Hamar-Þór vann sinn þriðja sigur í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld þegar liðið heimsótti Stjörnuna í Garðabæinn. Þetta er fyrsti sigur liðsins á þessu ári, síðan keppni hófst aftur eftir covid-hlé.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Hamar-Þórskonur léku vel í 2. leikhluta og náðu forystunni. Staðan var 34-38 í hálfleik. Stjarnan byrjaði betur í seinni hálfleik og komst yfir en Hamar-Þór átti frábæran endasprett.

Staðan var 62-62 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum en þá skellti Hamar-Þór í lás í vörninni, skoraði síðustu fimm stig leiksins og sigraði 62-67.

Fallyn Stephens átti frábæran leik fyrir Hamar-Þór, skoraði 35 stig og tók 13 fráköst. Gígja Marín Þorsteinsdóttir kom næst með 15 stig og 7 fráköst.

Hamar-Þór hefur 6 stig í 8. sæti deildarinnar en Stjarnan er með 8 stig í 4. sætinu.

Tölfræði Hamars-Þórs: Fallyn Stephens 35/13 fráköst/5 stolnir, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 15/7 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 7/8 fráköst/7 stoðsendingar, Helga María Janusdóttir 7/3 varin skot, Margrét Lilja Thorsteinson 3, Perla María Karlsdóttir 5 fráköst.

Fyrri greinEva María og Hergeir íþróttafólk Árborgar 2020
Næsta greinUngu mennirnir skelltu Fjölni