Eftir fimm leikja eyðimerkurgöngu unnu Selfyssingar loks sigur í 1. deild karla í knattspyrnu í dag, þegar liðið heimsótti Fjölni. Lokatölur í Grafarvoginum urðu 0-2.
Þetta var sannkallaður sex stiga leikur enda bæði lið búin að vera í brasi í neðri hluta deildarinnar. Sigurinn lyftir Selfyssingum upp úr fallsæti, tímabundið í hið minnsta, en Fjölnismenn sitja eftir á botninum.
Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleiknum og fengu nokkur ágæt færi áður en Aron Lucas Vokes braut ísinn á 41. mínútu. Hann fékk þá sendingu frá Frosta Brynjólfssyni í miðjum vítateignum og skoraði af öryggi.
Staðan var 0-1 í hálfleik og fyrstu fimmtán mínúturnar í seinni hálfleik voru Selfyssingar líklegri. Frosti átti meðal annars skalla í stöngina. Þegar leið á seinni hálfleikinn féllu Selfyssingar aftar og Fjölnismenn stýrðu umferðinni. Þeir fundu þó enga leið framhjá Robert Blakala sem átti mjög góðan leik í marki Selfoss.
Fjölnir reyndi allt hvað af tók að jafna en Selfyssingar refsuðu þeim á 88. mínútu þegar Frosti fékk boltann í vítateig Fjölnis og skoraði gott mark.
Selfoss er nú í 10. sæti deildarinnar með 6 stig en Fjölnir með 3 stig í 12. sæti. Þar á milli sitja Fylkismenn með 5 stig og leik til góða.