„Langt síðan ég var Valsari“

„Mér líst vel á leikinn í kvöld og ég hef mikla trú á því að við klárum þetta,“ segir bakvörðurinn Andri Freyr Björnsson. Selfoss heimsækir Val í Pepsi-deild karla í kvöld.

„Þetta verður hörkuleikur og við þurfum að gefa okkur 100% í verkefnið eins og í öllum öðrum leikjum í deildinni. Það er sama hvaða liði við erum að mæta, þetta eru allt erfiðir leikir,“ segir Andri sem segir Selfyssinga mæta einbeitta til leiks.

„Við höfum ekki náð að spila vel í 90 mínútur í síðustu þremur deildarleikjum eins og við gerðum á móti KR. Við höfum komist í 1-0 en síðan gefið eftir og það er mikilvægt að halda einbeitingu ef við komumst yfir í kvöld. Við erum með gott lið og þurfum bara að halda haus og laga þessa hluti,“ segir Andri.

Leikurinn í kvöld er spennandi fyrir margra hluta sakir en ekki síst fyrir það að þar mæta Selfyssingar þjálfara sínum á síðasta keppnistímabili, Gunnlaugi Jónssyni. Andri hefur þó ekki trú á að það eigi eftir að hafa mikil áhrif á leikinn.

„Gulli er örugglega búinn að kortleggja okkur en ég held að það eigi ekki eftir að breyta miklu þegar út á völlinn er komið. Þetta snýst um það hvernig menn eru stemmdir og við stefnum á að klára þetta.“

Andri þekkir ágætlega til á Hlíðarenda en hann lék með Val sumarið 2005 í 2. flokki og U23 ára liðinu. „Við vorum þarna ég og Gunnar Óli Guðjónsson og spiluðum undir stjórn Willums. Þetta var skemmtilegur og góður tími þar sem ég lærði heilmikið. En það er ekkert öðruvísi fyrir mig að mæta Val en öðrum liðum. Það er langt síðan ég var Valsari. Núna er ég algjör Selfyssingur,“ segir Andri Freyr hress að lokum.