„Langar að spóla áfram og komast til Rússlands núna“

Jón Daði Böðvarsson var þreyttur en sáttur þegar sunnlenska.is ræddi við hann að loknum leik Íslands og Kósóvó í undankeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í kvöld.

Ísland sigraði 2-0 í magnaðri stemmningu á Laugardalsvellinum og Jón Daði spilaði fyrstu sextíu mínútur leiksins.

„Það var mikið undir. Þetta var mikilvægasti leikurinn sem landsliðið hefur spilað og við erum bara mennskir, þannig að þetta var spennuþrungið. En við vorum þéttir og það var ágætt jafnvægi í leiknum hjá okkur. Við þurftum að vera þolinmóðir á móti þessu liði og þannig náðum við að skora tvö mörk og það var æðislegt,“ sagði Jón Daði og bætti við að leikurinn gegn Tyrklandi á föstudaginn hafi setið í mönnum.

„Leikurinn í kvöld var ekkert besti leikurinn okkar í keppninni. Það var langt flug eftir Tyrkjaleikinn, mikil hlaup þar og maður fann það í þessum leik í dag og það sat aðeins í manni. Við fórum þetta áfram á þrjóskunni og reynslunni og það tókst,“ bætti Jón Daði við, en hann var besti leikmaður Íslands gegn Tyrkjum og ánægður með upplifunina af þeim leik.

„Það var ótrúlega gaman að taka þátt í þeim leik. Þetta er sviðið sem þú vilt spila á, í svona geðshræringu og bilun. Það var gott flæði í leiknum hjá okkur og allt gekk upp,“ sagði Jón Daði.

Grín að heyra þetta frá Eiði Smára
Eiður Smári Guðjohnsen var einn þeirra sem hrósaði Jóni eftir leik og sagði að hann mætti bera númerið 22, númer Eiðs, það sem eftir væri. Jón Daði var stoltur af þeim ummælum.

„Þegar maður var krakki þá var maður að herma eftir honum, hreyfingunum og öllu þessu og maður leit upp til hans. Að heyra þetta í dag frá honum er bara grín,“ sagði Jón Daði.

Þetta er bara hlægilegt í rauninni
Jón Daði fór í gegnum yngri flokkana hjá knattspyrnudeild Selfoss, alla leið upp í meistaraflokk áður en hann fór í atvinnumennskuna. Hann segir leiðina langa, en hlutirnir hafi gerst mjög hratt í seinni tíð.

„Að komast á heimsmeistaramót. Þetta var bara fjarlægur draumur þegar maður var krakki og var að búa til sandhóla á malarvellinum á Selfossi eða að æfa sig á gervigrasinu hjá Vallaskóla. Þetta er bara hlægilegt í rauninni. Að vera á þessum tímamótum með þessu liði eru bara forréttindi. Það er gaman að horfa til baka og átta sig á þessu. Sjá hversu langt maður er kominn. Maður kom frá Selfossi í sitt fyrsta atvinnumannatímabil í Viking í Noregi sem var mjög krefjandi stökk og svo er maður allt í einu kominn hingað. Á leiðinni á HM. Þetta gerist svo hratt og er bara ótrúlegt.“

Trúum því að við getum unnið alla í heiminum
Það var stórt afrek hjá íslenska landsliðinu að komast á Evrópumeistaramótið í fyrra en Jón Daði segir að heimsmeistaramótið sé miklu stærra svið.

„Maður er bara svo stoltur að vera hluti af þessum hópi og ná þessum árangri. Við sýndum að við vorum ennþá hungraðir eftir að hafa komist á Evrópumeistaramótið. Við lentum með þvílíkum stórliðum í riðli i undankeppni HM, en sjálfstraustið og trúin í þessu liði er bara svo mikil. Við trúum því að við getum unnið alla í heiminum. Mig langar bara til þess að spóla áfram og komast til Rússlands núna,“ sagði Jón Daði léttur að lokum.

Fyrri grein„Ólýsanleg tilfinning að hlaupa rauða dregilinn“
Næsta greinTap í jöfnum leik í Hólminum