Langþráður sigur Selfyssinga í deildinni

Selfoss vann sinn fyrsta sigur í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í dag þegar Magni kom í heimsókn í rigninguna á Selfossvelli.

Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik, Selfyssingar voru meira með boltann en Magnamenn reyndu skyndisóknir og bæði lið hefðu hæglega getað skorað. Staðan var hins vegar 0-0 í leikhléi.

Þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik brutu Selfyssingar loksins ísinn. Fyrirgjöf Bjarka Leóssonar frá vinstri rataði á höfuð Magnamanns og boltinn fór þaðan í höfuðið á Kristófer Páli Viðarssyni áður en hann datt fyrir Gilles Ondo í teignum sem átti ekki í neinum vandræðum með að skora.

Selfyssingar voru nálægt því að bæta við í kjölfarið og Ingi Rafn Ingibergsson átti meðal annars stangarskot.

Magnamenn áttu líka sínar sóknir og fimm mínútum fyrir leikslok náðu þeir að skora eftir að Selfyssingar sváfu á verðinum.

Ingi Rafn var þó ekki á því að hleypa gestunum burt með stig og mínútu fyrir leikslok fékk hann góða sendingu innfyrir frá Kenen Turudija og vippaði boltanum snyrtilega framhjá markverði Magna.

Bæði lið fengu dauðafæri í uppbótartímanum en mörkin urðu ekki fleiri og Selfyssingar fögnuðu sínum fyrsta sigri í sumar. Lokatölur 2-1 og Selfoss fór úr botnsætinu upp í það níunda með fjögur stig.

Fyrri greinElvar Örn leikmaður ársins í Olísdeildinni
Næsta greinÆgir lá á Dalvík