Langþráð mark hjá Viðari Erni

Viðar Örn Kjartansson skoraði mark Íslands þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Katar í vináttulandsleik í Doha í Katar í dag.

„Ég var búinn að bíða rosalega lengi eftir þessu,“ sagði Viðar Örn í samtali við fotbolti.net eftir leik. „Það sem ég tek jákvætt úr þessum leik er að ég skoraði og sjálfstraustið hækkar vonandi með landsliðinu, það hefur verið svolítið niðri eins og hefur sést. Það er samt ekki jafn gaman að skora þegar leikurinn er ekki svo góður og sérstaklega þegar við vinnum ekki.“

Þetta var annað landsliðsmark Viðars í sextán leikjum. Hann kom Íslandi í 0-1 með glæsilegu marki á 26. mínútu eftir undirbúning Gylfa Þórs Sigurðssonar. Katarar jöfnuðu svo í uppbótartíma.
Viðar spilaði fyrri hálfleikinn en Ölfusingurinn Jón Guðni Fjóluson spilaði allan leikinn í vörninni og var valinn maður leiksins á fotbolti.net.
Fyrri greinStórslagur í Útsvarinu á föstudag
Næsta grein„The show must go on“