Landsmótsfundur HSK í kvöld

Héraðssambandið Skarphéðinn boðar til landsmótsfundar HSK í kvöld, fimmtudagskvöld. Fundurinn verður haldinn í Selinu á Selfossi og hefst kl. 20.

Á fundinum verður fjárhagsuppgjör Unglingalandsmótsins kynnt og afhent verða fjárframlög til þeirra félaga, deilda og ráða sem komu að undirbúningi og framkvæmd mótsins með vinnuframlagi sjálfboðaliða.

Á fundinum verður einnig rætt um þátttöku HSK á Landsmóti UMFÍ sem haldið verður á Selfosis 4. – 7. júlí á næsta ári. Kynntar verða keppnisgreinar og lagðar línur um þátttöku HSK, en HSK stefnir á sigur í stigakeppni mótsins.

Forráðamenn félaga, nefnda og ráða HSK eru boðaðir á fundinn. Einnig stjórn HSK, landsmótsnefnd HSK, framkvæmdanefnd landsmóta og sérgreinastjórar mótanna.

Ofantaldir eru hvattir til að mæta á fundinn, taka við kærkomnu fjárframlagi vegna hagnaðarhlutdeildar í Unglingalandsmótinu og hafa áhrif á hvernig staðið verður að framkvæmd og þátttöku HSK á komandi landsmóti.

Áhugafólk um landsmótin er velkomið að mæta á fundinn.