Landsmótinu slitið – HSK vann heildarstigakeppnina

27. Landsmóti UMFÍ var slitið á íþróttavellinum á Selfossi síðdegis í dag. Heimamenn í Héraðssambandinu Skarphéðni unnu heildarstigakeppni mótsins með yfirburðum.

HSK fékk 3.896 stig í heildarstigakeppninni en Ungmennasamband Kjalarnesþings varð í öðru sæti með 1.844 stig. Íþróttabandalag Reykjavíkur varð í 3. sæti með 1152,5 stig.

Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar landsmótsins, flutti þakkarávarp og þær Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar og Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, afhjúpuðu síðan þakkarskjöld á bautasteininum við frjálsíþróttavöllinn, þar sem landsmótanna á Selfossi er minnst. Ásta færði svo framkvæmdaaðilum mótsins þakkir fyrir samvinnuna og keppendum og starfsfólki sömuleiðis fyrir góða helgi.

Að því loknu voru afhent verðlaun í heildarstigakeppni í starfsíþróttum og íþróttum fatlaðra en þar sigruðu lið HSK á báðum vígstöðvum. Guðríður Aadnegard, formaður HSK, tók síðan við sigurlaununum í heildarstigakeppni mótsins.

Helga Guðrún sleit síðan mótinu, Hvítbláinn var dreginn niður á meðan þjóðsöngurinn var leikinn og landsmótseldurinn var síðan slökktur.

UMFÍ hefur ekki tilkynnt hvar eða hvenær næsta landsmót verður haldið.

Fyrri grein„Ágætis árangur miðað við aldur og fyrri störf“
Næsta grein„Fólk lagði ennþá meira á sig“