Landsmótinu lauk með hvelli

Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi var slitið laust eftir miðnætti með glæsilegri dagskrá á Selfossvelli þar sem flugeldar og blys bundu lokahnútinn á góða helgi.

Áður en Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, sleit mótinu, afhenti hún Keflvíkingum fyrirmyndarbikarinn. Iðkendur frá taekwondodeild og fimleikadeild Umf. Selfoss léku listir sínar og Björgunarfélag Árborgar sá svo um glæsilega flugeldasýningu sem lauk með miklum hvelli.

Þriðja keppnisdegi lauk síðdegis í dag en í kvöld var skemmtidagskrá í risatjaldi á tjaldsvæðinu í Björkurstykki þar sem fram komu DJ Sveppz, Jón Jónsson og Blár Opal.

Eftir það var skrúðganga á mótssvæðið á Selfossvelli þar sem mótinu var slitið.

Það er mál manna að vel hafi tekist en á þriðja þúsund keppendur sóttu mótið og hafa aldrei verið fleiri. Fjölmörg unglingalandsmótsmet féllu og skemmtu mótsgestir sér konunglega. Veðrið lék við keppendur og mótsgesti alla mótsdagana. Talið er að hátt í 15 þúsund manns hafi sótt mótið.