Landsmót UMFÍ 50+ á Ísafirði um helgina

Landsmót UMFÍ 50+ fer fram á Ísafirði um helgina og hefst keppni á föstudag og lýkur á sunnudag. Vonast er til að keppendur af sambandssvæði HSK fjölmenni.

Eins og á öðrum landsmótum þá er það íþróttakeppnin sem skipar stærstan sess á mótinu en síðan eru það fjölmargir viðburðir sem skreyta dagskrána. Lögð er áhersla á að þátttakendur hafi gaman og skemmti sér saman á mótinu.

Keppt verður í badminton, boccia, bogfimi, bridge, frjálsíþróttum, golfi, kajak, körfubolta 2:2, línubeitingu, línudansi, netabætingu, pútti, pönnukökubakstri, ringó, skák, skotfimi, stígvélakasti, strandblaki, sundi, víðavangshlaupi og þríþraut (synt, hjólað og hlaupið).