Landsmet og HSK met sett á héraðsmóti

Sigurlið Selfoss. Ljósmynd: HSK/Engilbert Olgeirsson

Alls voru 36 keppendur frá sex félögum skráðir til leiks á héraðsmót í frjálsum sem haldið var í Selfosshöllinni síðastliðinn sunnudag.

Landsmet og héraðsmet voru sett í eldri aldursflokkum á mótinu. Ágústa Tryggvadóttir Selfossi og Eyrún María Guðmundsdóttir úr Dímon eiga eftir helgina saman landsmetið í stangarstökki í flokki 35-39 ára, en þær stukku báðar 1,70 metra. Ólafur Guðmundsson Selfossi bætti 21 árs gamalt HSK met Markúsar Ívarssonar í stangarstökki í flokki 50-54 ára. Metið var 2,30 metrar, en Óli stökk hæst yfir 2,80 metra.

Tveir keppendur náðu að vinna fleiri en eina grein á mótinu, en Hugrún Birna Hjaltadóttir Selfossi vann 60 m og langstökk og hinn síungi Ólafur Guðmundsson vann stangarstökk og kúluvarp.

Selfyssingar unnu stigakeppni félaga, fengu 160 stig, Dímon varð í öðru sæti með 23,5 stig og Þjótandi í því þriðja með 20,5 stig.

Verðlaunahafar í stangarstökki kvenna, f.v. Ágústa, Eyrún María og Bryndís Embla. Ljósmynd: HSK/Engilbert Olgeirsson
Ólafur Guðmundsson sigurvegari í kúluvarpi. Ljósmynd: HSK/Engilbert Olgeirsson
Aldís Fönn Benediktsdóttir í hástökki. Ljósmynd: HSK/Engilbert Olgeirsson
60 m hlaup karla. Ljósmynd: HSK/Engilbert Olgeirsson
Fyrri greinÍvan Breki framlengir til þriggja ára
Næsta greinBæjarbraut og Æskuslóð á Hvolsvelli