Landsliðsmarkvörður Indlands til Hamars

Kvennalið Hamars í knattspyrnu hefur fengið liðsstyrk fyrir komandi tímabil en félagið hefur samið við Aditi Chauhan, sem er landsliðsmarkvörður Indlands.

Chauhan er 28 ára gömul og spilaði með West Ham á árunum 2015-2018. Hún spilaði svo með Gokulum Kerala í heimalandinu í fyrra og varð Indlandsmeistari með liðinu.

„Aditi er frábær viðbót í okkar flotta lið sem var stofnað í fyrra og átti geggjað fyrsta tímabil. Aditi hefur afrekað mikið á sínum ferli, bæði innann sem og utan vallar og er gríðarlega vinsæl í Indlandi. Við erum í skýjunum að fá þessa flottu stelpu í hópinn okkar og erum viss um að hún muni gefa af sér og efla ungar og efnilegar knattspyrnustúlkur í Hveragerði,“ segir í tilkynningu frá Hamri.

Fyrri greinÓvæntur fornleifafundur í Hrunamannahreppi
Næsta greinÁrborg og GOS í samstarf um uppbyggingu 18 holu golfvallar