Landsleikur í blaki á Flúðum

Kvennalandsliðið í blaki stendur í stórræðum um þessar mundir í undirbúningi fyrir smáþjóðamót í Luxemborg síðar í júní.

Danska kvennalandsliðið í blaki heimsækir Ísland um helgina og verða tveir vináttulandsleikir spilaðir. Annar þessara leikja fer fram í Íþróttahúsinu á Flúðum á morgun, laugardag og hefst hann kl. 15:00.

Er þar um að ræða fyrsta landsleik sem fram fer í Hrunamannahreppi, en stutt er síðan íþróttahúsið á Flúðum var stækkað í fulla stærð. Áður en leikur hefst verður stutt athöfn í húsinu þar sem meðal annars forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, ávarpar gesti og keppendur.

Bein útsending verður frá leiknum á SportTV.

Stutt er síðan karlalið Íslands var í æfingabúðum á Flúðum og landslið Íslands skipað piltum 17 og yngri mun leika þar leik gegn Ítölum í næstu viku. Mikill blakáhugi hefur ávallt verið í Hrunamannahreppi og Kristján Geir Guðmundsson í Dalbæ er stjórnarmaður í Blaksambandi Íslands, sem skýrir að hluta hversvegna leikurinn gegn Dönum fer þar fram.

Þess má svo geta að á laugardag fer fram strandblakmót við Litlu-Laxá, mót sem haldið er árlega og styrkt er af Gröfutækni.

Fyrri greinÍþrótta- og leikjanámskeið alltaf jafn vinsæl
Næsta grein15 milljóna yfirdráttur til að mæta launagreiðslum