Landsbankinn er áfram einn af aðalstyrktaraðilum Brúarhlaups Selfoss sem fram fer á morgun, laugardag.
Brúarhlaupið var fyrst hlaupið á 100 ára afmæli Ölfusárbrúar við Selfoss árið 1991. Upp kom sú upp hugmynd hjá forráðamönnum Frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss að minnast afmælisins með því að standa fyrir almenningshlaupi á Selfossi og fékk hlaupið nafnið Brúarhlaup Selfoss. Allar götur síðan hefur Frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss staðið fyrir hlaupinu ár hvert og alltaf fyrsta laugardag í september. Með vísan í nafn hlaupsins hafa hlaupið ávallt verið ræst á brúnni sjálfri.
Í ár verður hlaupið haldið í 23. sinn. Þátttaka í hlaupinu hefur ávallt verið mikil og keppendur á bilinu 700-1.000 manns. Bæði er hlaupið og hjólað og er þetta eina almenningshlaupið í dag sem bíður uppá þessa tvo valkosti. Hjólaðir eru 5 km eða 10 km og hlaupnir 2,5 km, 5 km 10 km svo og hálft maraþon sem er 21,1 km.
Sú leið sem hlaupin er á flatlendinu á Selfossi hefur af reyndum hlaupurum verið talin ein sú „hraðasta” hér landi. Það þýðir að margir hlauparar eru að bæta tíma sinn og árangur í lok sumars með þátttöku í Brúarhlaupi Selfoss.
Landsbankinn og Frjálsíþróttadeildin hafa um árabil átt mjög ánægjulegt samstarf sem hefur verið báðum aðilum til gagns. Í tilkynningu segir að með áframhaldandi samstarfi vill Landsbankinn sýna í verki áhuga sinn og stuðning við æskulýðs- og íþróttamál og um leið leggja áherslu á forvarnarþátt þess starfs.