Lágmarkskrafa um 2.500 sæti fyrir áhorfendur

Hluti af íbúum Árborgar (og gestir þeirra) í Hleðsluhöllinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Selfoss fá ekki keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu í handbolta á næstu leiktíð eins og félagið sóttist eftir en Evrópska handknattleikssambandið, EHF, hafnaði umsókn liðsins um þátttöku þar sem félagið hafi ekki staðist ákveðnar lágmarkskröfur.

„Það er skilyrði fyrir þátttöku að félögin hafi yfir að ráða húsi sem hentar fyrir keppni á þessu stigi, með lágmarks sætafjölda upp á 2.500 sæti. Selfoss skráði Ásvelli sem sinn fyrsta heimavöll og varavöllur var ekki tilgreindur í umsókninni. Ásvellir ná ekki þessum lágmarkskröfum um sætafjölda,“ sagði JJ Rowland, forstöðumaður fjölmiðla- og samskiptadeildar EHF í samtali við sunnlenska.is.

Samkvæmt upplýsingum sunnlenska.is rúma Ásvellir um 2.300 áhorfendur í sæti og þar hafa farið fram margir leikir í meistaradeildinni. Til samanburðar má geta þess að Hleðsluhöllin á Selfossi rúmar 700 manns.

„Þess vegna var það tillaga matsnefndar EHF og síðan ákvörðun stjórnar EHF að Selfoss uppfylli ekki lágmarkskröfur um þátttöku í Velux EHF meistaradeildinni,“ sagði Rowland ennfremur.

Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, sagði í samtali við sunnlenska.is í dag að HSÍ væri að skoða málið en ef svona fer mun Selfoss taka þátt í EHF-bikarnum eins og á síðasta tímabili og spila leiki sína í Hleðsluhöllinni.

Fyrri grein„Þetta er auðvitað áfall“
Næsta greinSex sækja um forstjórastöðuna