Lætur af störfum í kjölfar keppnisbanns

Þorvaldur Hjaltason, nýráðinn framkvæmdastjóri Golfklúbbs Hveragerðis, hefur látið af störfum hjá klúbbnum eftir að hafa verið dæmdur í 12 mánaða keppnisbann af aganefnd Golfsambands Íslands.

Í yfirlýsingu frá Golfklúbbi Hveragerðis kemur fram að Þorvaldur láti af störfu að eigin ósk með hagsmuni Golfklúbbs Hveragerðis að leiðarljósi. Klúbburinn þakkar Þorvaldi samstarfið og óskar honum góðs gengis í framtíðinni.

Þorvaldur var í upphafi vikunnar dæmdur í árs keppnisbann frá golfíþróttinni fyrir að hafa með óheiðarlegum hætti haft rangt við í golfmóti sem fram fór á Bakkakotsvelli í ágúst síðastliðnum. Þorvaldur breytti skorkorti sínu eftir að ritari hafði undirritað skorkortið.

Málið vakti mikla athygli í upphafi vikunnar og framkvæmdastjóri GSÍ sagði í viðtali við fjölmiðla að þetta væri líklega harðasti dómur í sögu aganefndar.