Kvöddu Bestu deildina með tapi

Það gekk ekkert upp hjá Selfyssingum í sumar. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Selfoss kvaddi Bestu deild kvenna í knattspyrnu með 1-0 tapi gegn Keflavík á útivelli í dag.

Keflvíkingar þurftu sigur til þess að halda sæti sínu í deildinni og heimakonur voru mun sprækari í leiknum. Þær skoruðu sigurmarkið á 27. mínútu eftir klafs í vítateig Selfyssinga.

Selfoss skapaði sér afar fá færi í leiknum og átti aðeins tvö markskot. Annað þeirra átti Embla Dís Gunnarsdóttir á 81. mínútu þegar hún átti hörkuskot rétt framhjá markinu og var það langbesta færi Selfoss í leiknum.

Hlutskipti Selfyssinga var ráðið fyrir leikinn í dag. Liðið varð langneðst í deildinni og féll með 11 stig sem er lakasti árangur Selfyssinga í efstu deild frá upphafi.

Fyrri greinSelfoss féll á markahlutfalli
Næsta greinSif leggur skóna á hilluna