Kvennaleikur blásinn af

Leikur Selfoss og Sindra í Lengjubikar kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli var flautaður af á 35. mínútu vegna veðurs í stöðunni 6-0.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ekki boðlegar en Selfoss lék með storminn í bakið í upphafi leiks. Leikurinn fór því að mestu leiti fram inni í vítateig Sindraliðsins og engin leið var að stýra boltanum í hornspyrnum og föstum leikatriðum.

Vindhraðinn í Flóanum er 21 m/sek og 32 m/sek í mestu hviðum og Jón Ásgeir Guðjónsson, dómari, sá ekki annan kost í stöðunni þegar hlutir voru farnir að fjúka inn á völlinn en að flauta hann af.

Úrslit leiksins standa ekki en liðin munu mætast á nýjan leik um næstu helgi.