Kristján Valur og sex aðrir í Árborg

Varnarmaðurinn Kristján Valur Sigurjónsson hefur gengið í raðir 4. deildarliðs Árborgar á Selfossi frá Hamri í Hveragerði.

Kristján Valur er tvítugur miðvörður en hann er reyndar ekki ókunnugur Árborgarliðinu því hann lék með liðinu bæði í 2. deildinni 2011 og í 3. deildinni 2012 á láni frá Selfossi, áður en hann skipti yfir í Hamar.

Knattspyrnufélag Árborgar gekk frá sjö félagaskiptum í gær áður en liðið hefur keppni í C-deild Lengjubikars karla í kvöld. Auk Kristjáns komu þeir Guðmundur Karl Eiríksson, Trausti Eiríksson og Sigurður Sigurðsson frá Selfossi, Ársæll Ársælsson frá Stokkseyri, Hrannar Eysteinsson frá Gnúpverjum og Arnþór Guðmundsson frá Laugdælum.

Árborg leikur gegn Skínanda í Lengjubikarnum í kvöld og hefst leikurinn kl. 19:00 á Selfossvelli.