Kristján og félagar heiðraðir í ráðherrabústaðnum

Íslenska bridslandsliðið ásamt Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Íslenska landsliðið í brids varð Norðurlandameistari eftir sigur á Dönum í hreinum úrslitaleik á Norðurlandamótinu sem fram fór í Kristiansand í Noregi fyrr í sumar. Af því tilefni heiðraði mennta- og menningarmálaráðherra landsliðið í ráðherrabústaðnum í síðustu viku.

Kristján Már Gunnarsson á Selfossi er einn liðsmanna íslenska landsliðsins, sem og Aðalsteinn Jörgensen, sem lengi var kenndur við Suðurlandsvídeó. Ásamt þeim í liðinu eru þeir Jón Baldursson, Sigurbjörn Haraldsson, Bjarni Einarsson og Gunnlaugur Sævarsson.

Ég óska liðinu hjartanlega til hamingju með þennan glæsilega árangur. Við getum svo sannarlega verið stolt af gengi landsliða okkar á hinum ýmsu sviðum. Brids á sér ákveðinn stað í hugum margra landsmanna sem hafa unun af því að koma saman og spila. Ég hef fulla trú á góðu gengi liðsins á Evrópumótinu sem fram fer á Madeira á næsta ári og vona svo sannarlega að afrekalisti liðsins lengist enn frekar,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. 

Því var einnig fagnað að Jón Baldursson, einn af meðlimum landsliðsins, var tekinn inn í frægðarhöll Evrópska Bridgesambandsins en aðeins ellefu einstaklingar hafa notið þess heiðurs. 

Brids nýtur talsverðra vinsælda á Íslandi en í dag eru starfandi 28 bridsfélög í öllum landshlutum. Um 1.000 manns spila reglulega keppnisbrids í félögum innan Bridgesambands Íslands, auk þess sem fólk spilar brids sér til skemmtunar í heimahúsum og á vinnustöðum.

Fyrri greinMinningareitur um Ólaf Hákon vígður
Næsta greinLeitað að tilnefningum til umhverfisverðlauna Árborgar