Kristján blakmaður ársins 2018

Kristján Valdimarsson. Ljósmynd/Blaksamband Íslands

Stjórn Blaksambands Íslands hefur valið Hvergerðinginn Kristján Valdimarsson blakmann ársins 2018.

Kristján er 29 ára leikmaður með BK Tromsö í Noregi. Hann er einn af burðarásum í sínu félagsliði í Tromsö sem situr í 3. sæti norsku úrvalsdeildarinnar í blaki. Í greinargerð með valinu segir að Kristján sé fyrirmyndar blakmaður.

Á árinu 2018 fékk Kristján silfur í norsku bikarkeppninni, bronsverðlaun í norsku úrvalsdeildinni ásamt því að spila með liði sínu í úrslitum Norður-Evrópukeppni félagsliða þar sem liðið endaði í 3. sæti.

Kristján er meðal bestu miðjumanna í norsku úrvalsdeildinni og meðal stigahæstu leikmanna í hávörn á þessu tímabili.

Hann er einn af burðarásum karlalandsliðs Íslands sem tók stórt skref á árinu og hóf keppni í undankeppni Evrópumóts landsliða í blaki.

Lið hans tók þátt í áskorendakeppni Evrópu á árinu en datt út í undankeppninni gegn liði frá Finnlandi. BK Tromsö er komið áfram í úrslit NEVZA keppni félagsliða sem fram fer í lok janúar.

Kristján hefur nú leikið 70 landsleiki og er meðal 7 leikjahæstu leikmanna Íslands frá upphafi.

Fyrri grein„Samfélagssáttmáli um líffæragjafir“ kynntur á Selfossi
Næsta greinKrabbameinslæknir hefur störf á HSU