Kristinn Þór tvöfaldur Íslandsmeistari

Kristinn Þór og Þorvaldur Gauti saman á verðlaunapallinum í 800 m hlaupi ásamt FH-ingnum Fjölni Brynjarssyni, sem gert hefur garðinn hvað frægastan sem lykilmaður í knattspyrnuliði Uppsveita. Ljósmynd/Selfoss

Kristinn Þór Kristinsson, Umf. Selfoss, hefur tekið fram hlaupaskóna á nýjan leik. Hann gerði sér lítið fyrir um helgina og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í bæði 800 og 1.500 m hlaupi á Meistaramóti Íslands innanhúss, sem fram fór í Laugardalshöllinni um helgina.

Kristinn Þór, sem er 34 ára, hóf keppni á nýjan leik á þessu ári eftir fimm ára hlé. Hann náði góðum tímum á mótinu, hljóp 800 m á 1:56,14 mín sem er besti árangur innanhúss á þessu ári og 1.500 m hljóp hann á 4:07,61 mín sem er einnig besti árangur ársins á Íslandi. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að tímarnir eru héraðsmet í flokki öldunga 30-34 ára.

Annar Selfyssingur, Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, sem er einungis 16 ára gamall náði þeim frábæra árangri að ná 3. sæti í 800 m hlaupi á tímanum 2:02,14 mín.

Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss, stórbætti sig í langstökki þegar hann stökk til silfurverðlauna með 6,53 m löngu stökki. Daníel Breki var aðeins 9 cm frá 39 ára gömlu HSK meti Jóns Birgis Guðmundssonar í flokki 16-17 ára. Daníel Breki varð fjórði í langstökki með stökki upp á 1,72 metra en liðsfélagi hans, hinn 15 ára gamli Hjálmar Vilhelm Rúnarsson stökk yfir 1,72m í fyrstu tilraun og vann til bronsverðlauna.

Hugrún Birna Hjaltadóttir, Umf. Selfoss, sem er 15 ára gömul náði þeim frábæra árangri að vinna til bronsverðlauna í þrístökki með því að stökkva 10,72 m. Hún varð svo í 7. sæti í langstökki en gerði sér lítið fyrir og bætti héraðsmetið í flokki 15 ára þegar hún stökk 5,22 og sló 6 ára gamalt HSK-met Bríetar Bragadóttur.

Hin 16 ára Ísold Assa Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, gerði vel þegar hún vippaði sér yfir 1,57 m í hástökki og vann til bronsverðlauna.

Þá náði Egill Atlason Waagfjörð úr Umf. Kötlu frábærum árangri á mótinu en hann krækti í bronsverðlaun, bæði í langstökki og þrístökki karla. Egill stökk 12,41 m í þrístökkinu og 6,33 m í langstökkinu.

Í stigakeppni meistaramótsins varð lið HSK/Selfoss í 4. sæti í heildarstigakeppninni, HSK/Selfoss varð í 5. sæti í kvennaflokki og 3. sæti í karlaflokki.

Hugrún Birna Hjaltadóttir vann brons í þrístökki. Ljósmynd: FRÍ/Marta Siljudóttir
Egill Atlason Waagfjörð fór heim með tvenn bronsverðlaun. Ljósmynd: FRÍ/Marta Siljudóttir
Ísold Assa Guðmundsdóttir náði í bronsverðlaun í hástökki. Ljósmynd: FRÍ/Marta Siljudóttir
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson krækti í brons í hástökki. Ljósmynd: FRÍ/Marta Siljudóttir
Fyrri greinHeimamenn harðari í seinni hálfleik
Næsta grein„Ganga er ekki raunhæfur ferðamáti fyrir stóran hluta Selfyssinga“