Kristinn Þór í landsliðinu í víðavangshlaupi

Kristinn Þór Kristinsson. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kristinn Þór Kristinsson, Umf. Selfoss, er í landsliði Íslands fyrir Norðurlandameistaramótið í víðavangshlaupum sem fram fer á morgun, laugardag, í Reykjavík.

Mótið fer fram í Laugardalnum og er rásmarkið við tjaldstæðið. Keppt verður í fjórum flokkum; karla- og kvennaflokki og flokki stúlkna og pilta 19 ára og yngri. Kristinn Þór keppir í karlaflokki.

Alls eru keppendur 92 talsins frá Norðurlandaþjóðunum fimm ásamt Færeyjum.

Mótið hefst klukkan 12:00 þegar stúlkurnar hefja keppni, þar á eftir hefst keppni pilta klukkan 12:35. Klukkan 13:10 hefst kvennahlaupið og svo loks hlaupa karlarnir klukkan 14:00.

Meðfram Norðurlandamótinu fer fram sveitakeppni hlaupahópa sem hefst klukkan 11:00. Aðgangur er frír og er fólk hvatt til að mæta og styðja íslensku keppendurna.

Fyrri greinÞórey Hekla sigraði í söngkeppni NFSu
Næsta greinRafmögnuð spenna í Frystikistunni