Kristinn nálægt Íslandsmetinu

Kristinn Þór Kristinsson, HSK, setti nýtt héraðsmet og hjó nærri Íslandsmetinu í 800 m hlaupi karla innanhúss um síðustu helgi

Þá var sett upp keppni í 800 m hlaupi sem aukagrein samhliða MÍ í fjölþrautum í Laugardalshöllinni.

Kristinn hljóp vegalengdina á 1:51,22 mínútum en átta ára gamalt Íslandsmet Björns Margeirssonar er 1:51,07. Frá þessu er greint á vefnum silfrið.is. Kristni tókst þó að bæta sitt eigið héraðsmet sem var 1:51,85 mín.

Kristinn Þór hljóp nærri keppnislaust en hann fékk samherja sinn Harald Einarsson til þess að hlaupa fyrri 400 metra hlaupsins og halda uppi hraðanum.

Haraldur fór í gegnum fyrstu 200 metrana á 26,9 sekúndum en tími Kristins á 400m var 54,9 (27,8 sek 2. hringur). Kristinn hélt síðan mjög jöfnum hraða síðustu tvo hringina sem hann hljóp á 28,1 sekúndu (600m á 1:23,0) og 28,2 sekúndum.