Kristinn með gull og silfur

Kristinn Þór Kristinsson, HSK/Selfoss, varð um helgina Íslandsmeistari í 800 m hlaupi karla á 90. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem haldið var á Akureyri.

Kristinn Þór hljóp á 1:54,91 mín og tryggði sér gullið. Hann vann einnig til silfurverðlauna í 400 m hlaupi þar sem hann náði sínum ársbesta tíma, hljóp á 50,79 sek.

Fjóla Signý Hannesdóttir, HSK/Selfoss, vann til tvennra verðlauna á mótinu. Hún náði silfrinu í 400 m grindahlaupi, hljóp á 1:03,65 mín og vann bronsverðlaun í 100 m grindahlaupi, þar sem hún hljóp á 14.94 sek, sem er besti tími hennar á árinu.

Thelma Björg Einarsdóttir, HSK/Selfoss, bætti persónulegt met í sleggjukasti þegar hún kastaði 42,20 metra og krækti í bronsverðlaunin.

Þá bætti Harpa Svansdóttir, HSK/Selfoss, einnig sinn besta árangur í þrístökki. Hún stökk 11,00 metra og varð í 4. sæti.