Kristinn Íslandsmeistari í 800 m hlaupi

Kristinn Þór Kristinsson HSK/Selfoss tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í 800 m hlaupi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina.

HSK/Selfoss sendi sjö keppendur til leiks sem allir stóðu sig með ágætum. Uppskera helgarinnar var eitt gull, eitt silfur og tvö brons ásamt því að eitt HSK met leit dagsins ljós.

Kristinn hljóp 800 metrana á 1.53,91 mín og sigraði með miklum yfirburðum. Hann tók svo silfurverðlaun í 400 m hlaupinu á góðum tíma, 50,48 sek.

Hinn 15 ára gamli Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór Þorlákshöfn stóð sig frábærlega í hástökkskeppni karla er hann stökk 1,93 m og hreppti bronsverðlaun þar. Þessi hæð er 1 cm frá Íslandsmeti hans í 15 ára flokki pilta. Styrmir átti mjög góðar tilraunir við 1,96 m sem var sigurhæðin í keppninni.

Í kringlukastskeppni kvenna átti HSK/Selfoss helming keppenda, fjóra af átta. Thelma Björk Einarsdóttir, Umf. Selfoss, bætti sig persónulega, fór í fyrsta sinn yfir 32 m, kastaði 32,16 m og varð þriðja. Eyrún Halla Haraldsóttir Selfossi varð skammt á eftir í fjórða sæti og Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir Suðra varð fimmta.

Jónína Guðný Jóhannsdóttir Selfossi varð svo sjöunda, en deginum áður kastaði hún sleggjunni mjög vel er hún bætti sitt eigið HSK met í flokki 15 ára stúlkna með kasti upp á 29,35 m en gamla metið var 29,09 m frá í vor.

Fyrri greinAlexandra Eir og Hlynur Geir klúbbmeistarar GOS
Næsta grein40 þúsund manns koma að Urriðafossi á ári