Kristinn bætti héraðsmetið í Sopot

Kristinn Þór Kristinsson, Umf. Samhygð, bætti HSK metið í 800 metra hlaupi innanhúss á heimsmeistaramótinu í Sopot í Póllandi í dag. Hann varð í 14. sæti á 1:51,20 mín.

Þetta er fyrsta stórmótið sem Kristinn Þór keppir á og óhætt að segja að hann hafi staðist pressuna. Hann bætti sig um 2/100 úr sekúndu en náði þó ekki að bæta Íslandsmetið í greininni en átta ára gamalt Íslandsmet Björns Margeirssonar stendur enn, 1:51,07 mínúta.

Kristinn varð strax aftastur í sínum riðli í dag en hljóp uppi Brice Etes frá Mónakó undir lokin og varð í 5. sæti riðlinum og í 14. sæti í heildina af alls 19 keppendum.

Fyrri greinSöngkvöld með Eyjamönnum í Hvíta
Næsta greinNútímakonur í Listasafninu