Kristinn Ásgeir vængstýfði Kríuna

Varnarmenn Kríu réðu ekkert við Kristinn Ásgeir Þorbergsson í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar vann alvöru iðnaðarsigur á Kríu á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Liðin mættust á Seltjarnarnesinu og þar lá Krían í skotgröfunum í fyrri hálfleik. Það var ekki fyrr en á markamínútunni, þeirri 43., að Kristinn Ásgeir Þorbergsson náði að brjóta ísinn og koma Árborg yfir.

Staðan var 1-0 í hálfleik en aðeins voru sex mínútur liðnar af seinni hálfleiknum þegar Krían jafnaði verðskuldað metin. Heimaliðið reyndi að fylgja þessu áhlaupi eftir og ógnaði talsvert í kjölfarið en vonir þeirra kulnuðu snögglega þegar Gestur Helgi Snorrason kom Árborg í 1-2 með glæsilegu marki eftir skyndisókn.

Árborgarar voru sterkari á lokakaflanum og Kristinn Ásgeir innsiglaði 1-3 sigur þeirra eftir frábæran sprett á 90. mínútu.

Árborg hefur nú 26 stig í 3. sæti deildarinnar, jafnmörg stig og KH sem er í 2. sæti en KH á leik til góða.

Fyrri greinSkjálftar á Heiðinni há
Næsta greinSumar á Selfossi byrjaði með látum