Kristinn Þór stórbætti HSK metið

Kristinn Þór Kristinsson, hlaupari úr Umf. Samhygð, stórbætti eigið HSK met í 800 metra hlaupi karla innanhúss á Reykjavík International Games, sem haldnir voru í Laugardalshöllinni fyrir skömmu.

Kristinn Þór hljóp á 1:51,85 sek. og bætti eigið met um tæpar þrjár sekúndur, en fyrra met hans var 1:54,71 sett árið 2011.

Kristinn var þriðji í hlaupinu á eftir Kevin Stadler frá Þýslalandi og Snorra Sigurðssyni ÍR. Hlaupið var sterkt og árangur Kevins var sá besti í karlaflokki. Kristinn fékk 1.027 stig samkvæmt stigatöflu IAAF, sem var sjötti besti árangurinn á mótinu í karlaflokki.

Fleiri HSK menn náðu að vinna til verðlauna á mótinu. Hreinn Heiðar Jóhannsson, Laugdælum, varð þriðji í hástökki, stökk 1,90 metra og Bjarni Már Ólafsson, Vöku, varð þriðji í langstökki með 6,44 metra.

Eva Lind Elíasdóttir úr Þór bætti sig í 60 m hlaupi um 9/100, úr 8,28 sek í 8,19 sek er hún varð 9. sæti í sterku 60 m hlaupi. Haraldur Einarsson, Vöku,átti sitt annað besta 60 m hlaup frá upphafi er hann hljóp á 7,15 sek. og varð fimmti. Hann á best 7,11 sek.

Þá stórbætti Teitur Örn Einarsson, Selfossi, eigið HSK met í 600m hlaupi 15 ára. Hann varð þriðji í hlaupinu á 1;35,04 mín, en gamla metið var 1;52,56 mín. Met Teits er einnig HSK met í 16 – 17 ára flokki og 18 – 19 ára flokki drengja.

Heildarúrslit mótsins má sjá á www.fri.is.

Fyrri greinSASS stefnir vegna strætó
Næsta greinFossbúar í nýju húsnæði