Kristinn Þór annar á nýju HSK meti

Á sumardaginn fyrsta fór Víðvangshlaup ÍR fram í 102. sinn, en hlaupið var jafnframt Íslandsmeistaramót í 5 kílómetra götuhlaupi. Kristinn Þór Kristinsson úr Umf. Selfoss varð annar í karlaflokki, en hann hljóp á 15;55 mín.

Það er nýtt HSK met í 5 km götuhlaupi í karlaflokki. Kristinn Þór átti gamla metið, 16,07 mín., en það var sett í Víðvangshlaupi ÍR árið 2012.

Fleiri HSK met féllu þennan dag, en Ástþór Jón Tryggvason Umf. Selfoss bætti eigin met í 18 – 19 ára flokki og 20 – 22 ára flokki þegar hann kom í mark á 18;18 mín. Metin í þessum flokkum voru frá 2015, en þá hljóp hann á 18;27 mín.

Keppendur í hlaupinu voru 501 talsins og er hlaupið orðið órjúfanlegur þáttur í hátíðarhöldum Reykjavíkurborgar á sumardaginn fyrsta ár hvert.

Fyrri greinSelfoss tekur forystuna í einvíginu
Næsta greinEgill tvöfaldur Íslandsmeistari