Kristinn Þór og Fjóla Signý frjálsíþróttafólk ársins

Meistarahópur HSK í frjálsum hittist á lokahófi í Selinu á Selfossvelli í síðustu viku þar sem keppnistímabilið 2013 var gert upp í gamni og alvöru, máli og myndum.

Kvöldið hófst á yfirferð um gengi HSK í flokkum 14 ára og eldri. HSK vann 100 gullverðlaun á árinu, 81 silfur og 78 brons. HSK varð Íslandsmeistari félagsliða innan og utanhúss auk þess að sigra frjálsíþróttakeppni Landsmóts UMFÍ, eftirminnilega með glæsibrag. HSK metin urðu fjörutíu utanhúss á árinu og átti Styrmir Dan Steinunnarson flest þeirra eða átta, Fannar Yngvi Rafnarsson kom þar næstur með fimm met, Eva Lind Elíasdóttir með fjögur met, en öll eru þau úr Þór í Þorlákshöfn. Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi kom svo næst með þrjú met.

Fannar, Styrmir og Thelma ásamt Hörpu Svansdóttur og Sólveigu Helgu Guðjónsdóttur frá Selfossi fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur á árinu og ekki síður góða ástundum við æfingar. Þau unnu öll til fjölda verðlauna á mótum sumarsins og má þar nefna að Fannar Yngvi vann flesta Íslandsmeistaratitla HSK fólks á árinu eða tíu en félagi hans Styrmir Dan var ekki langt undan með sjö titla. Allir sem urðu Íslands-, bikar- og landsmótsmeistarar fengu svo viðurkenningaskjal, en það voru sautján manns.

Hjá fullorðnum voru frjálsíþróttakarl og -kona ársins útnefnd. Þó vissulega hafi margir staðið sig vel á árinu þá kom það engum á óvart að hnossin hrepptu: Kristinn Þór Kristinnson millivegalengdahlaupari úr Samhygð og Fjóla Signý Hannesdóttir grindahlaupari og fjölþrautarkona frá Selfossi.

Kristinn vann nánast allt sem hægt var að vinna á Íslandi í hans grein 800 m hlaupi en hann er Íslands-, bikar- og landsmótsmeistari í þessari grein þar sem hann meðal annars tvíbætti 20 ára gamalt HSK í vegalengdinni. Kristinn varð einnig bikar- og landsmótsmeistari í 1500 m hlaupi sem og landsmótsmeistari í 400 m hlaupi.

Fjóla Signý er um þessar mundir fremst í 400 m grindahlaupi á Íslandi þó ekki hafi hún bætt sinn persónulega árangur í þeirri grein á árinu. Það gerði Fjóla hinsvegar í 100 m grindahlaupi. Hún er í öðru sæti á afrekaskrá ársins í stuttu grindinni, 100 m grindahlaupi. Fjóla er íslands- og landsmótsmeistari í 400m grindahlaupi sem og Landsmótsmeistari í hástökki. Fjóla vann til þrennra verðlauna á Smáþjóðaleikunum og keppti í Evrópubikarkeppni landsliða í upphafi sumars.

Einnig voru veittar viðurkenningar á léttu nótunum þar sem Guðbjörg Viðarsdóttir fékk verðlaun fyrir besta comebackið, Marinó Fannar Garðarsson var valinn mesti sveitadurgurinn og Bryndís Eva Óskarsdóttir mesti jaskurinn, svo eitthvað sé nefnt.

Á meðan á öllu þessu stóð borðaði fólk pizzur í boði hússins. Að loknum viðurkenningum var horft á peppvídeó frá mótum sumarsins sem féll mjög vel í kramið hjá fólki en í hittingurinn endaði svo á smá spjalli um það sem betur mætti fara í frjálsíþróttastarfinu á HSK svæðinu.

Gefandi sérverðlauna á lokahófinu var Sigurður Jónsson fyrrum frjálsíþróttamaður í Selfoss og HSK og margfaldur HSK methafi og meistari. Hann gaf steinakarla í verðlaun úr steinasmiðju sinni.

Fyrri greinÁhugavert myndband af björgun Halkion
Næsta greinAfla fjár með happdrætti